February 14

Minnistækni

0  comments

Utanbókarlærdómur er og verður alltaf stór hluti náms.  Skólakerfið er einfaldlega þannig upp byggt.  En skyldi námið ganga betur ef við ættum auðveldara með að festa allar þessar staðreyndir í minni og hvernig förum við að því?

More...

Lestur er undirstaða náms.  Stærstur hluti náms fer fram í gegnum bækur og kennslan er nánast eingöngu bókleg.  Verklegt nám er dýrt, og enn hefur lítið breyst hvað það varðar.  Helstu verkgreinar eru ennþá myndmennt og handmennt (list- og verkgreinar).

Bækur eru ódýrari og það er líka auðvelt að prófa nemendur og mæla þannig framgang námsins.

En sannleikurinn er sá að bækur veita okkur aðgang að upplýsingum.  Ekki reynslu.  Og þar sem við lærum af reynslunni mætti færa rök fyrir því að við lærum ekki af lestri einum saman, við öðlumst hins vegar þekkingu.

Skólinn reynir svo að mæla þessa þekkingu með prófum, og þar veltur frammistaða okkar á því hvort við munum svörin eða ekki!

Árangur í námi veltur á minni

Í þessu samhengi gerum við ráð fyrir að lestur og lesskilningur séu í góðu lagi.  En þegar við þurfum að lesa mikið þá reynir á að muna þetta allt.  Við höfum öll lent í því að geta ekki svarað spurningu á prófi vegna þess að við gátum ekki munað svarið.

En skyldi minnisþjálfun eða minnistækni geta létt okkur námið?

Það er mín skoðun já, og reyndar finnst mér að allir krakkar ættu að kynnast minnistækni.  Eins og ég sagði er lesturinn sjálfur grunnurinn, en algeng mistök felast í því að lesa sama efnið aftur og aftur.  Það er bæði tímafrekt og þreytandi.

Betra er að lesa vel og vandlega, með athyglina á því sem skiptir máli, og nota svo minnistækni samhliða.

Hvernig gagnast svo minnistæknin í námi?  Einfalt.  Í hvert sinn sem nemandinn les eitthvað sem hann þarf að muna, notar hann minnistækni til að festa atvikið, nafnið, staðinn eða ártalið í minni.

Minnistækni gagnast hvort sem nemandinn strikar undir lykilatriði eða beitir einhvers konar glósutækni.  Á einhverjum tímapunkti þarf maður að leggja tilteknar staðreyndir á minnið, er það ekki?

Í stuttu máli virkar minnistækni þannig að maður breytir upplýsingunum í myndir í huganum.  Það er auðvelt og skemmtilegt, virkjar ímyndunaraflið og virkar ótrúlega vel.  En það er ekki nóg, við þurfum að tengja myndina við eitthvað, svo við getum sótt hana aftur.  

Minnistækni er eins í raun eins og þvottasnúra, þar sem flíkurnar eru upplýsingarnar.

Getur maður munað allt með minnistækni?

Næstum.  Auðvitað gengur það mis-vel eins og með annað en það er alveg ljóst að minnistækni virkar, hún gerir okkur kleift að muna margfalt meira en við gætum annars, það er mun auðveldara að læra hluti utan að og við munum þá líka miklu lengur.

Það góða við minnistækni er að maður lærir tæknina einu sinni, en notar hana aftur og aftur.  Hún er endurnýjanleg!

Hún nýtist líka í alls konar ólíku samhengi, maður notar sömu aðferð í ólíkum tilgangi.

Með minnistækni hef ég hjálpað ungum dreng að læra dagana, nokkuð sem hann hafði aldrei lært og var þó orðinn 10 ára.  Þetta hvíldi á honum því hann skammaðist sín hálf partinn fyrir þetta.  Léttirinn var gríðarlegur og ánægjan líka þegar hann áttaði sig á því að hann gat þulið upp alla dagana í réttri röð í fyrsta sinn á ævinni.

Og það tók bara nokkrar mínútur að kenna honum það.

Ég hef líka hjálpað nemendum á unglingastigi, í framhaldsskóla og háskóla að nota minnistækni í venjulegu bóknámi.

Eitt sinn kom til mín fullorðinn maður sem var í einkaflugmannsnámi og var stopp því hann hafði fallið tvisvar sinnum á sama prófinu.  Hann sýndi mér efni sem hann varð að læra, en bara gat ekki munað fyrir sitt litla líf.

Ég lærði efnið utan að á 10 mínútum og sýndi honum svo hvernig hann gæti gert það sama.

Minnistækni snýst ekki um lestur eða lesskilning.  Hún snýst um að festa hluti, staðreyndir og svör minni svo við getum komið þeim frá okkur á prófi.

Ég hef kennt minnistækni um árabil, bæði í einkatímum og á námskeiðum fyrir ýmsa aðila.  Allir geta lært minnistækni, hún er einföld og skemmtileg. 

Ef þú vilt læra meira um minnistækni smelltu þá hér.


Tags

lesskilningur, minnistækni, námstækni, prófaundirbúningur, próftækni


Fleiri áhugaverðir póstar fyrir þig

{"email":"Email address invalid","url":"Website address invalid","required":"Required field missing"}
>