April 4

Lesblindur drengur verður seðlabankastjóri

0  comments

Getur lesblindur nemandi snúið vörn í sókn?  Er lesblinda ekki bara ávísun á basl og brotna sjálfsmynd?  Ótrúleg saga ungs drengs sem gat ekki lært að lesa, stamaði og var lagður í einelti af skólafélögum.  Saga drengs sem var laminn svo til daglega á skólatíma, en varð á endanum seðlabankastjóri Íslands.  

More...

Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri Íslands (2019)

Ef máltækið "Sá hlær best sem síðast hlær" hefur einhvern tímann átt við, þá er það í þessu tilfelli.

Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri er maðurinn sem greinir frá þessari ömurlegu reynslu í hlaðvarpsþætti Snorra Björns (hlustaðu á viðtalið hér).  Á þessum tíma var lítið vitað um lesblindu og voru nemendur sem glímdu við lestrarvanda settir í tossabekki.  Hvorki foreldrar né kennarar höfðu þekkingu né skilning á stöðunni.

Fordómar, einelti og ofbeldi

Fordómar voru því allsráðandi.  Ásgeir segir frá því í viðtalinu að honum hafi gengið illa að læra og hann hafi þurft hjálparkennslu.  Hann stamaði einnig mikið.  Hann átti því bæði erfitt með að taka inn upplýsingar, og koma þeim frá sér vegna stams.  Sjálfur hafði hann ekki hugmynd um að hann gæti verið lesblindur.

Því miður þarf það ekki að koma á óvart, en Ásgeiri var strítt mikið.  Hann var lagður í einelti og lenti oftar en ekki í barsmíðum í skólanum.

Ásgeir segir frá því að honum hafi alltaf kviðið því að fara í skólann.  Það sem Ásgeir lýsir í viðtalinu eru klassísk einkenni lesblindu, en hvorki hann né aðrir í kringum hann gátu áttað sig á því.  Byrjum á því hvernig hann upplifir hugsanir sínar sem myndir. 

Ég hef aldrei verið greindur...ég sé stafi eins og myndir.  ég man eftir því þegar ég var að fletta í bók 8-9 ára gamall, og gekk illa að lesa....en þegar ég uppgötvaði kerfið í stöfunum...þá gat ég lesið.

ásgeir jónsson

Er þetta lesblinda?

Að hugsa í myndum (eða þrívídd) er eitt sterkasta einkenni lesblindu og ADHD.  Þetta er styrkleiki þegar kemur að t.d. sjónminni og verklegum, skapandi greinum.  Þrívíð hugsun getur hins vegar ruglað okkur í ríminu þegar kemur að lestri og skrift.

Hægra heilahvelið er ábyrgt fyrir þrívíðri, myndrænni hugsun.  Vinstra heilahvelið sér m.a. um tvívíða, línulega hugsun (raðir).

Nemendur sem eru svona myndrænir í hugsun gengur best í verklegum greinum, þar sem hugur og hönd vinna saman.  

Lestur, skrift, stafsetning og stærðfræði, reynast þessum nemendum oft erfiður hjalli að komast yfir, þar sem framsetningin er á blaði - í tvívídd.

Ásgeir náði tökum á lestri um 9-10 ára aldurinn, og tók þá ákvörðun um að láta lestrarörðugleika ekki stöðva sig framar.  Hann ákvað að læra eins mikið og hann gæti, og hann var ungur þegar hann ákvað að hann skyldi ná doktorsgráðu.

Hann lýsir í raun miklu harðfylgi, enda tók hann lestrarfærni ekki sem sjálfsögðum hlut.  Ásgeir heldur áfram:


Ég sé orð eins og myndir, ég er með gríðarlega gott sjónminni og man allt sem ég les....ég sé stafi eins og myndir.  Ég náði svo mikilli færni og ég les mjög hratt.

ásgeir jónsson

Man útlit orða eins og myndir

Ásgeir lýsir því líka vel hvernig hann glímdi við erfiðleika í stafsetningu.  Hann lýsir því þannig að hann geti séð orðin fyrir sér, eins og myndir.  Útlit orðs, það hvernig orðið lítur út á blaði, köllum við "orðmynd".

Orðmynd er í raun mynd af skrifuðu orði, sem heilinn geymir eins og ljósmynd í myndabanka.  Þetta er nauðsynlegt eigi lesturinn að komast á skrið.  Hjá flestum gerist þetta í 2. bekk eða þar um bil, og þá verður lesturinn bæði léttari og hraðari.

Er barnið þitt lesblint?

Gengur lesturinn illa hjá þínu barni?  Grunar þig að lesblinda sé í spilinu?  Taktu lesblinduprófið og fáðu niðurstöðu á innan við 3 mínútum - ókeypis. 

Hjá lesblindum nemendum virðist þetta gerast mun hægar, þeir eru lengur að búa til þennan myndabanka af orðum.  Líklega vegna þess að orð eru rituð í tvívídd, en ekki þrívídd.

Ásgeir naut góðs af þessum sjónræna eiginleika þegar kom að stafsetningu.


Vegna þess að ég hef svo gott sjónminni þá geri ég aldrei y-villur í stafsetningu.  En ég get aldrei munað eftir því hvort það séu eitt eða tvö “n” við lok orða.

ásgeir jónsson

Þrátt fyrir að vera langskólagenginn segist Ásgeir ekki kunna neinar stafsetningarreglur.  

"Ég hef aldrei lært neinar stafsetningarreglur en ég man…sjónminnið segir mér hvort það sé “y” eða ekki.  En sjónminnið segir mér ekki hvort það séu eitt eða tvö “n”, ég bara get ekki munað það.  Það er líka mismunandi eftir því í hvaða falli viðkomandi orð er."

Sterkar skoðanir á stafsetningarkennslu

Ásgeir hefur sterkar skoðanir á fyrirkomulagi stafsetningarkennslu í skólakerfinu.  Enda hefur hann fengið að reyna margt.  Raddblærinn hans gefur til kynna að honum sé nánast heitt í hamsi þegar hann lýsir skoðunum sínum á þessum hluta íslenskukennslunnar.

"Stafsetning er ekki málið, ég sjálfur geri stafsetningarvillur.  Texti sem ég skrifa er ekki réttur.  Það er mjög algengt hjá mér  að gleyma orðum eins og “að” eða stafir víxlast inni í orðum hjá mér."

Erfiðleikar í tengslum við smáorð

Smáorð (s.s. að, það, í) valda lesblindum nemendum oft vandræðum.  Mörgum foreldrum finnst einkennilegt þegar barnið þeirra les svona "auðveld" orð vitlaust, eða sleppir þeim.  Það sama á við um ritun.


Lesblindir einstaklingar eru jafnan sterkir í sjónrænum þáttum, sem er kostur.  Veikleikinn liggur hins vegar í þáttum tengdum vinstra heilahvelinu, tvívídd.  Lesblindur nemandi er því háður því að geta séð fyrir sér merkingu hugtaka. 


Þegar merking hugtaka er óljós eða afstæð (t.d. "að"), aukast líkurnar á því að sá lesblindi lesi orðið vitlaust.  Eða skrifi. 

Það eru líklega skiptar skoðanir um gildi stafsetningar og ekki oft sem jafn hátt settur einstaklingur tjáir sig um þetta með jafn afgerandi hætti og Ásgeir gerir.  Hann á hrós fyrir að koma fram með þessum hætti og taka þannig upp hanskan fyrir þær þúsundir nemenda sem á hverjum tíma glíma við samsvarandi erfiðleika.

"Það er lögð allt of mikil áhersla á það í menntakerfinu á íslandi að berja inn þessa stafsetningu og málfræði, sem ég tel að séu mistök.  Ég tel að fólk eigi ekkert endilega að þurfa að læra málfræði, ég held að það sé tímasóun og að þú eigir bara að fá tilfinningu fyrir málinu."

Sendur í talþjálfun í miðju doktorsnámi

Í viðtalinu við Snorra Björns fer Ásgeir um víðan völl, enda hefur hann frá mörgu að segja, rétt nýorðinn fimmtugur.  Hann er langskólagenginn og hefur gengt mörgum ábyrgðarstöðum.  Ásgeir er með doktorsgráðu í hagfræði og kenndi um tíma í Bandaríkjunum. 

Þar bauðst honum fyrir tilviljun að fá aðstoð við staminu, sem hann þáði.  En það kom ekki til af góðu.  Nemendur hans kvörtuðu yfir framsögn hans og mæting í tímana var því afar dræm.

Nemendur og sumir kennarar efuðust um að hann talaði ensku eins og vel og hann sagðist gera.  Hann var því settur í sérstakt próf eða viðtal þar sem skera átti út um það hvort hann væri í raun ótalandi á ensku, eða stamaði.

Tjáning er mikilvægari en réttritun

Ásgeir hefur því fundið á eigin skinni hve mikilvæg tjáning er.  Fólk hlustar ekki á þann sem getur ekki tjáð sig vel.  Aftur og enn, á fullorðinsaldri í doktorsnámi í Bandaríkjunum, þurfti Ásgeir að standa upp fyrir sjálfan sig.  


Það sem skiptir máli er að að þú getir komið hlutum frá þér.  Finna hvernig þú byggir upp svar.  Krökkum er ekki kennt þetta í menntakerfinu, það er stöðugt verið að jagast í þeim með einhverjar helvítis þolmyndir og þágufall sem hefur enga þýðingu!

ásgeir jónsson

Ásgeir heldur áfram:

"Það sem á að kenna þeim er að skrifa.  Byggja upp rökleg svör.  Svo þarf líka að kenna þeim að koma fram og standa fyrir máli sínu.  Þú þarft að geta gert grein fyrir máli þínu."

Þótt saga Ásgeirs sé einstök, þá er hún á sama tíma saga þúsunda barna.  Líklegt er að lesblinda hrjái amk. 20% nemenda, og mun fleiri glíma við einhverja lestrarörðugleika.  Rannsóknir sýna að lesblinda hefur mikil áhrif á líðan og námsframmistöðu nemenda og því er svo mikilvægt að grípa snemma inn í þá óheillaþróun sem lestrarörðugleikar eru.


Tags

dyslexia, lesblinda, lesblindugreining, lestrarörðugleikar, lestrarþjálfun


Fleiri áhugaverðir póstar fyrir þig

{"email":"Email address invalid","url":"Website address invalid","required":"Required field missing"}
>