September 23

Það sem Chaplin getur kennt okkur um lestur

Hvað getur gamanleikarinn Charlie Chaplin kennt okkur um lestur og gildi þess að lesa hraðar?  Er leshraði ekki algjört aukaatriði í lestrarnáminu?  Chaplin fæddist árið 1889 og átti erfiða æsku, en náði engu að síður að verða einn dáðasti gamanleikari allra tíma, og sá ríkasti.  Byggði Chaplin árangur sinn á sömu lögmálum og gildir um árangur í lesnámi?

More...

Flestir halda að aukinn lestrarhraði skili sér með augljósum hætti:  Styttri tími fer í lestur, eða...þú getur lesið meira á skemmri tíma.  Vissulega er það rétt, en ávinningurinn er líka annar, og síst minni.

Meðalhraði hjá læsum einstaklingi er um 200-300 orð á mínútu.  Börn lesa að sjálfsögðu hægar.  Flestir sem lesa hægt glíma við eitt STÓRT vandamál 👉þeim gengur illa að muna það sem þeir lesa.

Hugurinn reikar mun meira þegar við gerum eitthvað hægt en þegar við gerum það á hraða, í flæði, á sjálfstýringu.  Hægur lestur er eins og langdregin bíómynd, gríðarleg áskorun fyrir athyglina.

Chaplin var snillingur í flæði

Ímyndaðu þér hvernig væri að vera á tónleikum þar sem hljómsveitin væri stöðugt að stoppa og stilla hljóðfærin.  Myndi það ekki skemma upplifunina🤔

Fyndnasti farsi í leikhúsi væri ónýtur ef leikstjórinn væri stöðugt að stoppa leikarana af, og segja þeim að byrja aftur.

Hik stöðvar flæði

Setning myndar eina heild, sem þarf að flæða frá A-Ö.  Ef lesturinn flæðir ekki, t.d. vegna þess að við lesum of hægt, þurfum að bakka og byrja aftur.

👉Við ruglumst þá meira.  Flæðið “brotnar” og við náum ekki samhenginu.

Við megum ekki hugsa of mikið, þá truflast flæðið.  Flæði byggir á sjálfvirkni.

Chaplin var snillingur í flæði. Hann byggði veldi sitt á flæði.  Hann umbylti gamanleik og hafði gríðarleg áhrif á kvikmyndaiðnaðinn.

Tímasetningar eru lykilatriði í gamanleik.  Myndirnar hans voru kannski þöglar🙊 en þær voru það sama fyrir augað og rímnaflæði er fyrir eyrun.

Án flæðis hefði Chaplin ekki þótt fyndinn

Lestrarörðugleikar valda truflun á flæði

Þeir sem glíma við lestrarörðugleika eiga það sameiginlegt að verða fyrir "truflunum" þegar þeir lesa.  Þetta veldur hikandi og höktandi lestri.  Stafaruglingur brýtur niður allt flæði, og orð sem lesandinn hnýtur um gera það líka.

Lesturinn nær því ekki að verða sjálfvirkur.

Læs nemandi getur lesið án þess að hugsa.  Hann les á sjálfstýringu.  Athygli hans er ekki upptekin af lestrartækninni sjálfri, heldur innihaldinu.   Lesturinn flæðir eins og vel æfð rútína hjá Chaplin.

Chaplin bjó etv. yfir náðargáfu hvað þetta varðar.  Hann hafði innsæi og hæfileika.  En árangurinn kom ekki af sjálfu sér.  Hann vann myrkranna á milli og hafði úr litlu að spila.  Hann varð á endanum einn vinsælasti leikari heims og sá hæstlaunaðasti.

Þess vegna skiptir leshraði máli

Eins einkennilega og það hljómar, þá snýst leshraði ekki bara um hraða😮

Þetta er ekki kapphlaup um að lesa sem mest á sem skemmstum tíma.  En um hvað snýst þetta þá?  
👉Góður leshraði snýst um flæði!

Öllu heldur - flæði leiðir af sér betri leshraða!  Lesskilningur er því oftast mun betri þegar lesturinn sjálfur nær að verða sjálfvirkur.

Ef heimalesturinn gengur ekki vel, þrátt fyrir margra mánaða, jafnvel margra ára streð, má reikna með því að meiri heimalestur sé etv. ekki besta leiðin til að ná tökum á lestrinum.

Því lestrarörðugleikar lagast sjaldnast af sjálfu sér.  Æfingin skapar jú meistarann, en ekki alltaf.  Stundum er "meira" ekki nóg.

Hik og hökt er merki um brotið flæði í lestrinum

Nemandi sem hikar, giskar eða les mjög hægt, nær ekki flæði.  Lesturinn er ekki á sjálfstýringu.  Eins og illa æft gamanatriði.

Nemandi getur þróað með sér lestrarörðugleika þegar hann myndar ákveðið viðbragð við lestrinum.  Óvissa og ruglingur við upphaf lestrarnáms getur orðið að ósjálfráðu viðbragði sem nemandinn nýr ekki að losna við.

Þannig getur stafaruglingur, stafaspeglun eða erfiðleikar við lestur orðið að djúpstæðu vandamáli sem nemandinn nær ekki að leysa.

Þegar þetta er raunin, nær nemandinn aldrei flæði í lestrinum.  Lesturinn kostar alltaf áreynslu og orku, en flæðir ekki áreynslulaust eins og hann ætti að gera.

Markmiðið með lestrarþjálfun er ekki að auka leshraða þannig lagað, heldur að ná lestrinum á sjálfstýringu.



Tags

dyslexia, lesblinda, lesblindugreining, lestrarkennsla, lestrarörðugleikar


Fleiri áhugaverðir póstar fyrir þig

{"email":"Email address invalid","url":"Website address invalid","required":"Required field missing"}
>