April 6

Brottfall…eða brottkast?

0  comments

Stór hluti lesblindra á erfitt uppdráttar í námi.  Bætum við fólki með ADHD og hópurinn stækkar enn.  Þegar fjöldi frumkvöðla er skoðaður sést vel að ótrúlega margir þeirra tilheyra þessum hópi.  Til einföldunar mætti segja að þessi hópur skapar störfin sem langskólagengna fólkið þarf á að halda.   En hvers vegna þetta ströggl í skóla?  Hversu lengi á þessi hópur að bíða til að fá þá viðurkenningu og athygli sem hann á skilið?

More...

Varlega áætlað glíma milli 40-50.000 Íslendingar við einhverja lestrarörðugleika.  Við tökum því sem gefnu að þessi hópur eigi erfitt uppdráttar í námi og nemendur með lesblindu eða ADHD eru mun líklegri til að flosna upp úr námi.

Skólakerfið er íhaldssamt, og kannski á það að vera það.  Ekki viljum við að stefna skólans breytist frá einni önn til annarrar.  En fylgir skólakerfið þeirri hröðu þróun sem er í gangi í atvinnulífinu?

Nemendur með námsörðugleika eru nemendur með ímyndunarafl

Til að skilja þetta þurfum við fyrst að skoða betur hópinn sem lendir á vegg í skólakerfinu.  Þetta eru upp til hópa nemendur sem:

👉blómstra í verklegum, skapandi greinum
👉eiga erfitt með að einbeita sér
👉verða fljótt leiðir ef kennslan og viðfangsefnið er ekki nógu spennandi
👉eru listrænir og elska að teikna, lita, leira, smíða, setja saman og skapa
👉hafa ríkt ímyndunarafl

Fólk sem tilheyrir þessum hópi hugsa í myndum – og ímyndun er þeirra ær og kýr.  Hvatvísi er líka oft til staðar en hún getur verið nauðsynleg til að koma hlutunum á hreyfingu.

Ég sé orð eins og myndir, ég er með gríðarlega gott sjónminni og man allt sem ég les....ég sé stafi eins og myndir [lestu meira].

Ásgeir jónsson

Seðlabankastjóri Íslands

Athafnamenn sitja ekki á hugmyndum – þeir framkvæma þær.

Skólakerfið hentar miðlungsnemendum best

Skólakerfið er byggt upp á texta og táknum.  Það er línulegt, fyrst þetta og svo hitt.  Lestur er línulegur, reglur og raðir eru línulegar.  Allt þarf að gerast í réttri röð á réttum tíma.  Þetta reynist mörgum erfitt.  Athyglin flýgur um heima og geima ef ekkert aðkallandi er í gangi.

👉Nemendur sem eiga erfitt uppdráttar eiga á hættu að dragast aftur úr.
👉Nemendur sem fara hratt yfir eiga líka oft erfitt uppdráttar.  
✅Best er að fylgja hópnum.  Það er einfaldast fyrir alla.  Fara hvorki of hratt, né hægt.

Hvar á skapandi hugsun heima í skólanum?

Skapandi hugsun

Hægra heilahvelið er “ábyrgt” fyrir skapandi og myndrænni hugsun, litir, form og dagdraumar búa þar.  Það er stundum sagt um lesblinda (og fólk með ADD) að það sé hægra heilahvels fólk í vinstra heilahvels heimi.  Íslendingur í Danmörku.

Fjölmargir afburðamenn eru lesblindir og hafa verið í gegnum tíðina.  Enginn bjóst við miklu af Thomas A. Edison né Einstein.  Skólaganga þeirra var stutt og brösótt.  Hvar værum við ef manna eins og Graham Bell,  John Lennon og Henry Ford hefði ekki notið við?

Hver hefur ekki notið sköpunarverka Agöthu Christie, HC Andersen, og Walt Disney?  Hvers virði eru störf og verk fólks eins og Richard Branson (Virgin), Opruh Winfrey, Ingvars Kamprad (Ikea) og Leonardo DaVinci?

Hvaða áhrif höfðu þau á samtíma sinn og þeirra sem á eftir komu?

Hve margir Walt Disney-ar, Albert Einstein-ar og Leonardo-ar gáfust upp?  Bognuðu eða jafnvel brotnuðu á sinni grýttu leið að árangri?

Skapandi greinar afgangsstærð í skólakerfinu?

Skapandi greinar eru í aukahlutverki í skólakerfinu.  Myndmennt, textíll, matreiðsla.  Það eru grunnfögin íslenska og stærðfræði, danska og enska sem skipta máli.  Allt þetta línulega.

Þegar á bjátar eru list- og verkgreinar oftast þær fyrstu til að vera skornar niður. 

"Skerða þarf list- og verkgreinakennslu, val í 8.-10. bekk og stuðning við nemendur" (mbl.is, 27.01.2011)

Hve framsýnt er það?😟

Vandamál tónlistarskólanna hafa líka verið í fréttum – ekki þarf að hafa fleiri orð um forgangsröðunina á þeim bæ.  

Hvers virði eru skapandi greinar?

Er það ekki fyrir löngu orðið ljóst að útflutningur snýst ekki bara um sjávarútveg?  Ferðamannaiðnaðurinn hefur vaxið gríðarlega og er það ekki síst ímynd íslands að þakka, sem aftur má rekja til skapandi greina sem vekja áhuga erlendra ferðamanna á landinu.

Kaleó slær í gegn í Bandaríkjunum

Dísella Lárusdóttir vinnur Grammy verðlaun

Íslenskur kvikmyndaiðnaður veltir milljörðum

Þá virðast önnur fög halda velli.  Enginn talar um að skerða málfræðikennslu, jafnvel ekki á námsbrautum þar sem þörfin fyrir íslenskukennslu er í raun engin.


Skapandi greinar utanveltu?

Hvers vegna eru skemmtilegust kúrsarnir alltaf í formi “námskeiða” – þá aðeins í boði fyrir einn og einn árgang og jafnvel einn og einn skóla?  Loksins þegar eitthvað kemur fram sem örvar sköpunargáfuna, þrívíddarhugsunina og þjálfar krakkana í að leysa verkefni frá A-Ö…þá birtist það í formi einhvers konar hliðarnámskeiðs.  Oft með tilheyrandi kostnaði fyrir foreldra sem “leyfa” börnum sínum að fara.

Dæmi um þetta eru t.d. smiðjur og leiklistarnámskeið ýmiskonar, hið vinsæla legó námskeiðhestar og leiðtogaþjálfun og svo mætti lengi telja.  Sjálfur kenni ég skapandi námsaðferðir á náskeiðinu Glósuskólinn, námsaðferðir sem rúmast illa innan ramma skólakerfisins.

Glósuskólinn - Námstækni fyrir nemendur í framhalds- og háskóla

Skráning

Skráðu þig og við sendum þér nánari upplýsingar um Glósuskólann.

Skráning í póstlistann er ókeypis og án kvaða.  Þú getur afskráð þig þegar þú vilt.

Kerfið eyðir meiri tíma í að spegla sig í sjálfu sér en raunveruleikanum fyrir utan það.  Rætur skólakerfisins ná langt aftur fyrir tíma tölvubyltingar.  Hlutir sem tók óratíma að reikna út áður taka nú augnablik.  Unglingar semja og framleiða tónlist í herberginu sínu og dreifa á netinu.

Ungt fólk hannar og selur flíkur og handverk frá a-ö og svo mætti lengi telja.  Íslenskur fjölspilunarleikur er einn sá vinsælasti í heimi, með fleiri áskrifendur en sem nemur allri íslensku þjóðinni.  Nokkuð sem var óhugsandi fyrir ekki svo löngu síðan er blákaldur veruleiki í dag.

Fjörugt ímyndunarafl snýst ekki bara um einhverja draumóra, heldur veruleika.

Hvers vegna er námsskráin svona einhæf? 

Ég er ekki bara að tala um að nemendur eigi að leika sér – en jú, af hverju mega þeir ekki leika sér?  Þannig lærum við mest og hraðast.  Mér hef það oft á tilfinningunni að nemendur þjáist af einhvers konar doða um miðjan grunnskólann, 7.-9. bekk.  Í þeirra huga líkist Þetta stundum eyðimerkurgöngu, stefnulaust ráf án tilgangs.

Það er ekki hægt að snúa við og ekkert framundan.  Í 10. bekk hafa þau enn ekki hugmynd um hvað þau vilja læra eða gera í framtíðinni.  Það vantar tenginguna.  Námsleiði eða einhvers konar kulnun í námi.  Kulnun í starfi er þekkt og er vitað að slík kulnun getur haft afdrifaríkar afleiðingar, skort á einbeitingu og tapaða minnisgetu svo eitthvað sé nefnt.

Hver er tilgangurinn?

Vantar jarðtenginu í skólakerfið?  Er mögulegt að virkja meira skapandi greinar og tækni á efri stigum grunnskólans.  Að skapa meiri tengingu við raunveruleikann.  Þetta eru klárir nemendur sem hafa lært helling þegar þarna er komið við sögu, innan sem utan skóla.

Verkefni sem vektu þau til lífsins og veittu þeim tækifæri til að sjá ljósið.  Verkefni sem:

✅kenna þeim að nálgast og leysa vandamál

✅gera þeim kleift að skapa eitthvað frá eigin brjósti

✅…eitthvað sem gæti orðið að vöru eða þjónustu síðar meir

Þessi verkefni gætu verið jafn fjölbreytt og þau eru mörg, t.d.

✅Hugbúnaðargerð, s.s. forrit og leiki

✅hanna vörur, uppfinningar

✅fatahönnun og tískuvöru

✅handverk

Snillingar framtíðar

Þessi verkefni krefjast skapandi hugsunar, hópvinnu.  Þarna sameinast hæfileikar nemenda t.d.  í tölvum, myndlist, handverki o.s.frv.

Þetta gæti vakið áhuga þeirra á faggreinum sem þau vissu ekki að væri til, þetta gæti skerpt fókusinn gagnvart frekara námi.

Nemendur myndu fræðast um gildi og hlutverk:

👉hönnunarvinnu
👉handverks
👉iðngreina
👉tæknigreina
👉tölvuvinnu og forritunar
👉stærðfræði og rökhugsunar
👉hugmyndavinnu
👉og síðast en ekki síst, menntunar

Hér geta allir blómstrað.  Líka þessir með “námsörðugleikana” sem oft á tíðum virðist vera tilbúið vandamál innan skólanna.  Hvort sem hæfileikarnir og áhuginn liggja í skapandi hugsun, tölvum, hönnun, myndlist, ritun…þá er pláss fyrir alla í góðum hópi.  Allir fá hlutverk.

Nýsköpun!  Frumkvöðlasmiðjur!  Sprotar!

Tískuorðin í dag.  Þau hafa flogið hátt í fjölmiðlum.  Frumkvöðlar og sprotafyrirtæki eru framtíðin.  Við ættum að líta okkur nær. Persónulega finnst mér þetta jaðra við hroka af ráðamönnum að tala svona.
  • Hvaðan eiga þessir frumkvöðlar að koma?
  • Hvar í skólakerfinu er stutt við skapandi greinar og nýsköpun markvisst?
  • Hvaða skilaboð senda yfirvöld til skólanna um gildi skapandi greina?
  • Hvaða skilaboð sendir skólinn til nemenda um gildi skapandi greina?

Hvergi – og ég undirstrika hvergi – í mínu námi frá grunnskóla til háskóla var frumkvöðlahugsun rædd og mótuð. Hvergi.

Rusl inn – rusl út (e. “Garbage in – Garbage out.”)

Skapandi greinar stór útflutningsgrein

Í ræðu Iðnaðarráðherra (frá 10.12.2010) kemur fram að helmingur styrkveitinga úr Átaki til atvinnusköpunar til skapandi greinar.  18 fyrirtæki á sviði skapandi greina eru nú í frumkvöðlasetrum Nýsköpunarmiðstöðva.

Margrét Sigrún, Lektor í Viðskiptafræðideild HÍ kynnti áhugaverðar niðurstöður – nánast sjokkerandi (afsakið málfarið) – um að velta vegna menningartengdrar starfsemi hafi numið 191 milljarði árið 2009.

Með skapandi greinum á ég ekki eingöngu við listgreinar.  Skapandi hugsun er lykillinn að vöruþróun og framleiðslu.  Markaðssetning er skapandi grein.  Framleiðsla byggir á sköpunargáfu.  Það er ekki nóg að hafa hráefnið tiltækt – það þarf að hanna og þróa vöru og koma henni á markað.  Tæknigreinar (sjá t.d. Össur og Marelgogoyoko) eru skapandi og stærðfræði því gríðarlega mikilvæg svo dæmi sé tekið.

Jafn mikið vægi stærðfræði og íslensku - á raungreinabraut?

Á vef Menntamálaráðuneytis er að finna aðalnámsskrá til stúdentsprófs.  Maður skyldi ætla að á Náttúrufræðibraut væri raungreinum gerð góð skil.  Ég furða mig á því hvers vegna í Kjarna-hlutanum til stúdentsprófs er að finna 15 einingar (5 áfanga) í stærðfræði en jafnmargar einingar í íslensku!

Fjöldi eininga í tölvufræði: núll!

Og hve margar einingar í tölvufræði skyldu vera í kjarna-hlutanum: 0 einingar (lesist “núll”).
Nemendur geta svo valið áfanga af “kjörsviði” til sérhæfingar.  Þar er að finna 4 áfanga í tölvufræði.  Brautarlýsinguna er að finna hér.

Davíð Helgason er stofandi Unity, vinsælasta þróunarumhverfis fyrir tölvuleiki í snjallsímum.

Davíð seldi hluti úr fyrirtækinu fyrir milljarða og komst á lista Forbes yfir ríkustu menn/konur í heimi.

Fallni frumkvöðulinn

Frumkvöðull þarf að hugmyndaríkur, skapandi og  hvatvís.  Þetta er eiginleikar flestra þeirra sem lenda í námsörðugleikum.

Skólakerfið framleiðir ekki frumkvöðla – það brýtur þá niður.

Með tímanum missa þessir nemendur sjálfstraustið, þeir eru utanveltu, annars flokks.

Það er engu líkara en ávörp um frumkvöðlahyggju og sprotaverkefni séu ákall yfirvalda til þeirra sem fyrir löngu er búið að sparka úr skólakerfinu.

Hvaðan eiga frumkvöðlarnir að koma?  Eitt er víst, að flestir þeirra sem ná að ljúka námi eru ekki frumkvöðlar í eðli sínu.  Í skólakerfinu eru nefnilega allir eins.  Ferhyrndir eins og fjöldaframleiddir pappakassar.

Fjöldaframleiðsla er líklega markmiðið.  Hvernig á annars að vera hægt að mæla alla eftir sömu mælistiku?

Gerið eins og ég – verið eins og ég!

Í Vestrænu skólakerfi stendur kennarinn á einum stað, og nemendur á öðrum.  Í upphafi annar a.m.k.  markmið kennarans er að kenna, leiðbeina hópnum á leið sinni að markmiði sínu.  Markmiðið er að sjálfsögðu að komast á staðinn sem kennarinn er á.

Nemandinn fær sjaldnast einkunnir fyrir að fara sínar eigin leiðir í námi, hvatvísi og frumlegheit.  Hvernig mælir maður það?  Í stærðfræði t.a.m. eru útreikningar oft teknir fram yfir svarið sjálft.  Leiðin að svarinu en mikilvægari en útkoman.  Nemandi fær ekki “rétt” fyrir útkomu nema leiðin að svarinu sé líka “rétt”.  Að sjálfsögðu þurfa nemendur að kunna tiltekna aðferðafræði en þetta nokkuð lýsandi um kennsluna almennt.

Á endanum fá allir sömu útkomu, því þeir fóru jú allir sömu leið að svarinu.

Leikskólinn – fyrirmyndin?

Í leikskólum er skapandi starf í fyrirrúmi.  Aðferðir eru leikrænar og verkfæri hvetja til skapandi  hugsunar.  Síðasta haust skipulagði leikskóli einn útivistargöngu fyrir barnahóp í nærliggjandi móa.  Stefnan var sett á að safna laufblöðum og vinna verkefni tengt þeim þegar til baka væri komið.  Líma þau á spjald o.s.frv.

 
Barnahópurinn leggur af stað (~4 ára börn) og hefur ekki gengið lengi þegar litlir fallegir steinar fanga athygli hópsins.  Þau voru hugfangin af útliti, lögun og litum steinanna og fyrr en varði voru börnin farin að safna steinum í stað laufblaða.

Kennararnir létu sér ekki bregða – skiptu um markmið þarna á staðnum.  Laufblöðin mættu bíða, í dag voru það steinar sem skiptu máli.  Börnin komu hæstánægð með steinana sína í hús og unnu samviskusamlega úr þeim efnivið þann daginn.

Það sem mér fannst svo gott í þessu að það var ekki markmið kennaranna sem skipti máli hér, heldur upplifun barnanna.  Það var leiðin, upplifunin, lífsreynslan sem réði för – Ekki fyrirfram skilgreind útkoma.

Borgarstjórinn og kindin

Kind

Ég heyrði sögu af borgarstjóra Reykjavíkur, Jóni Gnarr.  Sagði hann frá því þegar hann var ungur strákur í smíðatíma.  Hann vildi smíða sverð og skjöld.  Smíðakennarinn sagði honum að gera kind.  Hann þurfti að pússa þessa kind, að því er honum fannst, tímunum saman.  Pússa og pússa.  Aldrei var þetta nógu gott.  Þegar hann sýndi kennaranum afraksturinn var hann sendur aftur til baka til að pússa meira.

Þetta vakti ekki áhuga hans á smíði.  Þvert á móti.  Þetta var leiðinlegt og langdregið.  Hann vildi gera sverð.  Hver er tilgangurinn með svona kennslu?  Hvaða lærdóm dregur nemandinn af henni?

Líklega var smíðakennarinn ágætis maður.   Hvaða mynd hefur þú af honum í þessari frásögn?

Ég veit ekki hvort sagan er sönn – það skiptir ekki máli hér.

Ef allir búa til eins kind – hvað verður þá um fjölbreytnina, áhugann og nýsköpunina?

Hver einstaklingur skiptir máli – hver nemandi skiptir máli fyrir samfélagið.  Hver einstaklingur sem fer út af sporinu kostar samfélagið offjár svo ekki sé minnst á sárin sem hann skilur eftir sig hjá sjálfum sér og öðrum sem ekki eru metin til fjár.

Er pláss í skóla fyrir ófyrirséða útkomu?

Hversu oft fá nemendur að vinna verkefni án þess að útkoman sé fyrirsjáanleg?  Sköpunarferlið er ferli, það tekur tíma og hugmyndir mótast með tímanum.  Hversu oft er kennarinn í hlutverki leiðbeinanda, í stað þess að vera í hlutverki einhvers alviturs sem veit alltaf lokasvarið?

Þeir eiginleikar sem námsörðugleikafólk státar af, eru hins vegar eftirsóknarverðir á efri skólastigum.  Frumkvæði, útsjónarsemi, hugmyndaauðgi og hvatvísi.   En hvernig eiga þessir nemendur að komast á efri skólastigið þegar þeir komast ekki  í gegnum glerþakið sem þar virðist vera?

Fjölmargir nemendur hafa gefist upp á skóla – jafnvel ekki náð að ljúka iðnnámi sínu – vegna “staðbundinna” erfiðleika, t.d. í íslensku eða dönsku.

“Gerið eins og ég – verið eins og ég!”

Er það lögmál að fólk með lesblindu og ADHD ströggli í skóla?

Fær nemandinn falleinkunn, eða skólakerfið?  Þegar tugir þúsunda einstaklinga ströggla í námi, er þá ekki eitthvað að?

Sérstaklega í ljósi þess að stór hluti nemenda sem þarf sér úrræði fellur svo vel við skilgreininguna á frumkvöðli?  Erum við að sparka skapandi fólkinu úr námi, og kalla það brottfall?

Ungt fólk sem gætu í framtíðinni skapað samfélaginu milljarðatekjur með listsköpun sinni, hönnun eða hverju því sem það kann best að gera?

Brottfall - eða brottkast?

Þegar sjómaður kastar óvelkominni veiði aftur fyrir borð, kallast það brottkast.  Brottkast í sjávarútvegi kostar okkur líklega milljarða, vegna þess eins að bráðin passar ekki í kassann.

Brottkastið er ekki bráðinni að kenna, það er sjómaðurinn sem ber ábyrgð.

Þegar nemandi hrökklast frá námi, af sömu ástæðum - er það nemandanum að kenna, eða kerfinu sem hann passar ekki í?

Þegar nemandi gefst upp og hættir námi, er það brottfall eða brottkast?

Það skiptir í raun ekki máli, kostnaðurinn hleypur á milljörðum hvort sem er.


Tags

adhd, athyglisbrestur, dyslexia, lesblinda, lesblindugreining


Fleiri áhugaverðir póstar fyrir þig

{"email":"Email address invalid","url":"Website address invalid","required":"Required field missing"}
>