May 8

Lestrarþjálfun sem vinnur með heilanum – en ekki móti

0  comments

Að ná tökum á lestri getur reynst þrautin þyngri fyrir mörg börn.  Við upphaf lestrarnáms geta ýmsir erfiðleikar komið upp, þótt ekki sé ljóst hvort um lesblindu sé að ræða.  En hvað er til ráða þegar nemandi ruglast ítrekað á stöfum og gengur almennt illa að ná tökum á lestri?

More...

Algeng einkenni lestrarörðugleika við upphaf lestrarnáms

Lestrarörðugleikar birtast í ýmsum myndum og einkennin geta verið mörg.  Einkenni lesblindu eru vissulega oft þau sömu, en fyrstu árin eru þessi einkenni svo almenn að erfitt getur verið að greina hvort um lesblindu sé að ræða.  Ef þú átt barn sem hefur strögglað við að ná tökum á lestri, þá þekkir þú líklega eitthvað af eftirfarandi:

✅Stafaruglingur
✅Hægur, hikandi lestur
✅Lítið úthald
✅Nemandinn les oft vitlaust eða breytir orðum

Hvað er "hljóðaaðferð" í lestri

Hljóðalestur er sú kennsluaðferð sem mest er notuð, enda góð kennsluaðferð.  Hljóðaaðferð byggir á því að tengja saman hljóð stafanna.  Við upphaf lestrarnáms þekkir nemandinn ekki útlit margra orða, og því bregst heilinn ekki við tvívíðum orðum eins og hann gerir við þrívíðum myndum.

"Grundvallaratriði hljóðaaðferðarinnar er að nemendur skilji að bókstafirnir tákna hljóð orðanna í talmálinu. Helsti kostur aðferðarinnar er að nemendur læra skilvirka tækni til að lesa stöðugt ný og ný orð sem koma fyrir í texta." (Lesvefurinn)

Orðmyndin sjálf (útlit orðsins á prenti, t.d. "aðeins") er nemandanum semsagt framandi.  Nemandinn skilur þó hugtakið sjálft þegar hann heyrir það.  Í þessu samhengi erum við eingöngu að tala um "útlit" orðsins.

Með tímanum byggir nemandinn upp eins konar "sjónrænan orðaforða".  Orðunum sem nemandinn þekkir án þess að hugsa - fjölgar semsagt.

Hvað gerist þegar hljóðaaðferð bregst?

Margir nemendur sem eiga erfitt uppdráttar í lestri ná oft litlum árangri með hljóðaaðferð.  Þessir nemendur ná ekki að byggja upp þennan sjónræna orðaforða með sama hraða og gert er ráð fyrir.

Það er ekki hljóðaaðferðin sem slík sem bregst - nemandinn kann oftast að hljóða og heldur því áfram að lesa löturhægt.  Hann festist í raun í hljóðun, og heldur áfram að lesa með því að tengja saman hljóð stafanna.

Það kann kannski að hljóma eins og ég sé á móti hljóðaaðferð, en það er ég alls ekki.  Hér er ég einkum að tala um tilfelli þar sem nemandinn á erfitt uppdráttar í lestri strax frá upphafi lestrarnáms, og úrræðaleysis virðist gæta.  Úrræðaleysið birtist í því að hljóðaaðferð skuli beitt, sama hversu vel eða illa hún virðist henta nemandanum.

Lestrarþjálfun snýst um að bæta sjálfvirka viðbragðið

Lesum hraðar þjálfunin gerir nemandanum kleift að bæta sjálfvirka viðbragðið, og léttir þannig lesturinn.  Margir hafa sett sig upp á móti því að lesa hratt - Lesum hraðar þjálfunin snýst ekki um að lesa hratt.

Hún snýst um að lesa hraðar.  Ástæðan er sú að við viljum ekki að nemandinn lesi HÆGT.  Og hvers vegna ekki?

Vegna þess að hægur lestur bendir oft til þess að nemandinn sé að ströggla um of.  Hægur lestur getur verið merki um að:

👉Nemandinn ruglist um of á stöfum
👉Nemandinn þekki ekki orðmyndirnar (útlit orðanna á blaði)
👉Nemandinn stóli á hljóðalestur

Hægur lestur er auðvitað eðlilegur framan af.  Sjónræni orðaforðinn er enn lítill og nemandinn les flest orð með því að tengja saman stafina.

En þegar framfarirnar láta standa á sér, þá er ástæða til að hafa varann á.  Mögulega er  nemandinn að ströggla um of við að bera kennsl á einhverja bókstafi eða hugtök.

Er "óvissa" lykilorsök erfiðleika í lestri?

Nemandi sem þekkir bókstaf, þarf ekki að hugsa sig um.  Ástæðan er sú að undirvitundin veit svarið, það er í langtímaminninu.  Það sama gildir þegar hann sér orð sem hann þekkir.  Kosturinn við að vita svarið er að það sparar orku, og við svörum af öryggi, án þess að hika.  Þetta á ekki bara við um lestur, heldur líka margt fleira eins og hugarreikning, margföldun oþh.

Viðbragð nemandans getur gefið okkur upplýsingar um það hvar hann er staddur í lestrinum.  Ef viðbragðið einkennist af óvissu, nemandinn hikar og virðist þurfa að brjóta heilann, má sjá að frekari þjálfunar er þörf.

Fullvissa er það sem við stefnum að.  Þá þekkir nemandinn bókstafinn eða hugtakið samstundis, og þarf ekki að hugsa.  Viðbragðið er mun betra og nemandanum finnst þetta auðvelt.

Fullvissa

 • Við þurfum ekki "hugsa"
 • Svarið kemur til okkar, samstundis
 • Við finnum fyrir öryggi, fullvissu
 • Við "kunnum" þetta

Óvissa

 • Við hikum og finnum fyrir óöryggi
 • Við "stöndum á gati"
 • Við þurfum að brjóta heilann
 • Stundum finnum við svarið, stundum ekki

Niðurstaða:

Markmiðið í lestri ætti að vera að nemandinn finni fyrir fullvissu og öryggi þegar hann les.  Til þess þarf hann að þekkja öll grunntáknin (hástafi, lágstafi og greinarmerki) svo vel að hann þurfi ekki að hugsa.

Skapar æfingin meistarann?

Þegar nemandi ruglast lengi á bókstöfum, þarf að grípa inn í.  Algengt er að nemendur ruglist á bókstöfum jafnvel árum saman.  Það sama gildir um algeng hugtök.

Þegar nemandinn þekkir ekki orðmynd (útlit orðsins) án þess að hugsa, þá grípur hann til hljóðunar.  Eins og hljóðunaraðferð getur verið góð kennsluaðferð, getur hún líka verið merki þess að nemandinn þurfi hjálp.

Þegar nemandi festist í hljóðunaraðferð, þarf að grípa inn í

Þegar lestrarnámið fer hægt af stað hjá barni, er viðkvæðið oftast að halda bara áfram á sömu braut.  Barnið þurfi bara meiri tíma.  Æfingin skapar meistarann og allt það.

Mín skoðun er sú að þegar barn þarf bersýnilega hjálp í lestri, þá þurfi að greina betur hvað það er sem nemandinn strögglar með, svo hægt sé að beita sem bestum úrræðum sem allra fyrst.

Við viljum hætta að nota hljóðunaraðferð sem fyrst

Endurtekning er augljósasta leiðin til að ná árangri í lestri.  Og ekki bara lestri.  Þannig lærum við jú flest annað líka, að ganga, hjóla, synda, tala osfrv.

Miklu máli skiptir að endurtekningunni fylgi ásetningur.  Nemandinn þarf að vita til hvers hann er að þessu og halda athygli samhliða þjálfuninni.

Því miður skilar það litlum árangri að æfa eitthvað annars hugar.  Margt af því sem við lærum sem börn krefst mikillar athygli og er spennandi.  Það er spennandi að læra að hjóla og því er erfitt að vera annars hugar á meðan.

En í hugum margra barna - sérstaklega þeirra sem ströggla - þá er lestur allt annað en spennandi.

Er hljóðunaraðferð slæm fyrir lesblinda nemendur?

Höfum í huga að nemandi þarf ekki að vera lesblindur til að eiga erfitt uppdráttar í lestri.  Lesblinda er sjaldnast greind fyrr en í 4. bekk svo flestir foreldrar þekkja baráttuna við heimalesturinn allt of vel áður en að því kemur að greina lesblindu (sjá póst um "hverjir greina lesblindu").

Hljóðunaraðferð skaðar ekki lesblinda nemendur, en hún gerir þeim oft erfitt fyrir og getur jafnvel hægt á framförum.

Vandamálin byrja fyrir alvöru þegar ógreindur, lesblindur nemandi nær ekki tökum á lestrinum og festist í hljóðun langt fram eftir aldri.

Við þurfum sjónrænan orðaforða til að ná tökum á lestri!

Með tímanum byggir nemandinn upp svokallaðan sjónrænan orðaforða.  "Myndir" af hugtökunum verða til í heilanum og þeim fjölgar hratt eftir 2. bekk - þegar lestrarnámið gengur vel.

Og þá gerast galdrarnir.  Þegar nemandinn sér orð sem heilinn þekkir, þá þarf hann ekki að hljóða!

Hvers vegna lenda svo mörg börn í basli með lestur?

Hvort sem lesblinda (dyslexia) er í spilinu eða ekki, þá er það staðreynd að fjölmörg börn eiga erfitt með að ná tökum á lestri við upphaf lestrarnáms.  Þá má spyrja sig hvort hljóðunaraðferð sé í raun besta lestraraðferðin fyrir þessi börn.  Sjálfsagt eru margar rannsóknir sem benda til þess að svo sé, og aðrar sem benda til þess að svo sé ekki.

Kannast þú við þessi einkenni hjá þínu barni?

Ef þú horfir á styrkleika og veikleika barnsins þíns, tengir þú við eftirfarandi?

Styrkleikar - þrívídd

 • Gott ímyndunarafl, skapandi
 • Nýtur sín í verklegum, skapandi greinum
 • Gott sjónminni, verkfærni
 • Gengur best að læra þegar það fær að prófa og framkvæma

Veikleikar - tvívídd

 • Tímaskyn slakt
 • Seint til máls, hljóðminni ekki gott
 • Erfiðleikar með bókstafi/tölustafi
 • Lengi að læra dagana, á klukku osfrv.

Niðurstaða:

Ef þú tengir við ofangreint, þá sést að barnið þitt sækir styrkleika sína í hægra heilahvelið.   Í hægra heilahvelinu vinnnur heilinn með form, liti og skapandi hugsun almennt.

Veikleikarnir hins vegar liggja í vinstra heilahvelinu, þar sem heilinn vinnur með tákn, tíma, tungumál osfrv.

Í skóla reynir mikið á eiginleika sem við tengjum við vinstra heilahvelið. 

Heilinn vinnur úr orðmyndum eins og öðru sjónrænu áreiti

Nú veistu að styrkleikar skapandi einstaklinga (sem oft greinast með lesblindu síðar) liggja í sjónrænum skapandi greinum.  Sjónminni þeirra er gott og þeir eiga auðvelt með að sjá hluti fyrir sér.

Þessi börn eiga hins vegar oft sögu um að hafa verið sein til máls, og mörgum áttu erfitt með að læra t.d. söngtexta á leikskóla.  Stundum er talað um "hljóðvillu" eða slaka "hljóðkerfisvitund.  Í því ljósi má spyrja sig hvort hljóðunaraðferð sé virkilega það besta sem við getum boðið  þessum börnum?

Hvers vegna fá börn sem glíma við lestrarörðugleika enga aðra hjálp en sömu lestraraðferðina sem þau hafa notað árum saman með litlum árangri?

Vísindamenn telja sig nú vita að heilinn vinnur úr texta (orðmyndum) á sama svæði og öðrum myndum.  Þar greinir heilinnn leiftursnöggt á milli þekktra orða og svokallaðra orðleysa (nánar á "Neuroscientists Found Which Part of Our Brains Tells Real Words Apart From Srhlil")

Ættu þá lesblindir einstaklingar ekki að eiga auðvelt með lestur?

Kannski ekki ef öll þjálfun snýst um hljóðun.  Getur verið að sjónrænir styrkleikar nemandans fái ekki að njóta sín þegar kennsluaðferðin snýst um að tengja saman hljóð stafanna og byggir öðru fremur á hljóðkerfisvitund.

Kannski ekki ef öll þjálfun snýst um hljóðun.  Getur verið að sjónrænir styrkleikar nemandans fái ekki að njóta sín þegar kennsluaðferðin snýst um að tengja saman hljóð stafanna og byggir öðru fremur á hljóðkerfisvitund.

Getur "áunnin lesblinda" hjálpað okkur að sjá hljóðunaraðferð í öðru ljósi?

Það er áhugavert að setja hljóðunaraðferð í samhengi við áunna lesblindu.  Vísindavefurinn skilgreinar áunna lesblindu sem afleiðingu slyss eða skaða á vinstra heilahveli.  Með þessu er ég auðvitað ekki að líkja lesblindu við skemmdir á heila.  Vísindin segja að lesblinda orsakist af þroskafræðilegum þáttum.  En skoðum hvað Vísindavefurinn segir um áunna lesblindu.

Um áunna lesblindu

"Sumir geta til dæmis tapað hæfileikanum til að lesa orð í heilu lagi [....] Þetta fólk getur stautað sig í gegnum texta með því að mynda hljóð á eftir hverjum bókstaf."

Vísindavefurinn

Háskóli Íslands ( Heimild)

Þarna hefur fólk tapað hæfileikanum til að þekkja orðmyndina sjálfa og les í raun eins og byrjandi í lestri - með því að tengja saman hljóð stafanna.  Það er ljóst að þetta er ekki góð staða í lestri.  Engu að síður heyri ég það ítrekað frá foreldrum barna sem hafa glímt við lestrarvanda árum saman að lausnin felist í því að æfa sig.

Þessir foreldrar fá engar tillögur um að breyta lestrarkennslunni.  Þvert á móti er þeim uppálagt að halda áfram að nota sömu aðferð og þau hafa notað öll árin, hljóðunaraðferð.

Kolbeinn Sigurjónsson

Lesblinduráðgjöf

Hér sést hversu mikilvægur hæfileikinn er að geta lesið orð í heilu lagi.  Til þess þarf heilinn að þekkja orðmyndina.  Oftast gerist þetta sjálfkrafa þegar hljóðunaraðferð hefur verið notuð um tíma, um og eftir 2. bekk.  Þegar nemandinn stólar á hljóðun mun lengur þá ætti það að vera ljóst að hljóðunaraðferð er etv. ekki besta úrræðið fyrir þennan nemanda og aðrar leiðir ættu að skoðast.

Að byggja upp sjónrænan orðaforða - safn af orðmyndum - ætti að vera hið eiginlega markmið fyrstu námsárin, hvort sem hljóðunaraðferð er besta leiðin eða ekki.  En lítum aftur á hvað Vísindavefurinn segir um áunna lesblindu.

Um áunna lesblindu

"Aðrir geta lesið orð í heilu lagi, en eiga í miklum vandræðum með að lesa orðin eftir bókstöfunum sem mynda þau.

Þannig getur þetta fólk oft lesið orð sem það þekkir vel en finnst afar erfitt að lesa bæði svokallaðar orðleysur ("bullorð" eins og 'drask' eða 'prengiró') og orð sem það hefur sjaldan eða aldrei séð áður."

Vísindavefurinn

Háskóli Íslands ( Heimild)

Hér sést aftur hversu mikilvægur þessi sjónræni orðaforði er.  Svo virðist sem margir nemendur sem eiga erfitt uppdráttar í lestri njóti ekki góðs af hljóðunaraðferðinni sem lestrarkennsluaðferð.  

Þegar hljóðunaraðferð gengur vel þá nær nemandinn með tímanum að búa til sjónræna mynd af hugtakinu í sjónminninu.

Nemandinn hljóðar því hann þekkir ekki orðið

Þegar nemandi hljóðar, þá segir það okkur að hann þekki ekki orðmyndina.  Hann ber semsagt ekki kennsl á hið skrifaða útlit orðsins.  Hann notar því einu aðferðina sem hann kann, að tengja saman hljóð stafanna.

Þannig getur hljóðun verið vísbending um að eitthvað sé að, einhverjir undirliggjandi erfiðleikar eru að standa í vegi fyrir framförum.

Hvenær verður hljóðunaraðferðin að vandamáli?

Hljóðunaraðferð er góð og gild kennsluaðferð, á því leikur enginn vafi.  Hljóðunaraðferð er hins vegar ekki góð lestraraðferð.  Því fyrr sem nemandinn hættir að hljóða, því betra.  Þetta gerist í skrefum.  Sum orðin lærir nemandinn á undan öðrum.  Þegar hann rekst á ný og framandi þá beitar hann hljóðaaðferð á þau.

Hljóðunaraðferð getur orðið að vandamáli þegar nemandinn stólar á hana sem lestraraðferð, og beitir henni hugsunarlaust.

Þetta getur orðið að vandamáli þegar nemandinn á erfitt með að ná tökum á grunnþáttum lestrartækninnar, að bera kennsl á bókstafi og hugtök með sjálfvirkum hætti.  Án þess að hugsa.  Við erum að tala um sjálfvirka umskráningu sem þarf að eiga sér stað.

Eins og ég sagði hér að ofan þá þarf ásetning og athygli til að ná tökum á lestri.  Markmiðið þarf að vera ljóst.  Ef öll athygli nemandans er á hljóðuninni, að tengja saman hljóð stafanna, þá getur hún ekki verið á orðmyndinni á sama tíma.

Nemandinn veitir orðmyndinni því litla sem enga athygli og er í raun ekki að þjálfa hana.  Hann er að þjálfa hljóðun.

Nemandanum fer fram í því sem hann æfir.  Flestir nemendur sem ég hef hitt og hafa jafnvel strögglað mikið við lestur, kunna að hljóða.  Þess vegna halda þeir áfram að hljóða.

Lesum hraðar lestrarþjálfunin byggir upp lestrarfærni með því að þjálfa viðbragð nemandans svo það verði sjálfvirkt.  Daglegur æfingatími er undir 5 mínútum svo nemandinn þreytist lítið og hægt er að klípa mínúturnarnar af heimalestrinum og sleppa við að lengja lestrartímann.

Hvenær skal hætta að nota hljóðunaraðferð?

Ef nemandinn kann að nota hljóðunaraðferð, og hún er í raun ekki vandamál - hvers vegna er þá nemandanum uppálagt að nota hana áfram, jafnvel ár eftir ár?


Á sama hátt mætti spyrja:  Ef nemandann skortir færni til að þekkja útlit orða án þess að hugsa, hvers vegna er sú færni ekki þjálfuð upp markvisst?

Hljóðunaraðferð og nefnuhraði

Í einföldu máli má lýsa nefnuhraða sem tímanum sem það tekur lesandann að nefna ritháttarmynd (orðmynd) algengra orða.  Semsagt, tíminn sem það tekur nemandann að bera kennsl á bókstaf, tölu eða hugtak.

Í raun: Nefnuhraði stendur fyrir viðbragðstíma nemandans.  Betri nefnuhraði jafngildir betra viðbragði.

Á Lesvefnum segir að nefnuhraði sé oftast prófaður með eftirfarandi hætti:

Hvað er nefnuhraði?

 • að nefna ritháttarmyndir algengra orða eins fljótt og mögulegt er áður en næsta orð birtist (confrontation naming CN)
 • að nefna röð stafa, númera, lita og algengra hluta eins hratt og mögulegt er (rapid automatized naming-RAN).

lesvefurinn

Markmið lesæfinga er augljóslega að bæta nefnuhraðann, eða viðbragðið.  Nemandi með gott viðbragð nær góðu flæði í lestri og getur einbeitt sér að innihaldi textans.

Nemandi með slakan nefnuhraða er lengur að bera kennsl á stafi eða hugtök, og orkan og einbeitingin fer því í það.  Lítill nefnuhraði er auðvitað eðlilegur við upphaf lestrarnáms.  Með tímanum batnar þetta oftast sjálfkrafa, þar sem hefðbundnar lesæfingar gera það að verkum að nemandinn lærir að þekkja bæði tákn og hugtök án erfiðleika.

En markmiðið er engu að síður að bæta viðbragðið.

Hvers vegna les barnið svona hægt?

Hljóðunaraðferð er ráðandi lestrarkennsluaðferð.  Lesandinn þjálfast í lestri með því að tengja saman hljóð stafanna, og með tímanum lærir hann að þekkja útlit orðanna og hljóðunaraðferðin verður óþörf með tímanum.

Því fyrr, því betra.

Betra viðbragð segir okkur að lesandinn sé að ná betri tökum á lestrinum.

Barn sem strögglar við lestur glímir oft við erfiðleika í grunnþáttum lestrarins sem hljóðunaraðferðin stólar á - en lagar ekki endilega.

Hljóðunaraðferð gengur vel ef grunnstoðirnar eru í lagi

Hljóðunaraðferð gengur oftast vel - fyrir meirihluta nemenda.  En reikna má með að 20-30% nemenda nái ekki góðum tökum á lestri með hefðbundinni lestrarkennslu.  


Þegar allt  gengur upp verður lesturinn sjálfvirkur með tímanum.  Nemandinn lærir að þekkja hugtök án þess að hugsa meðvitað um þau.


Eigi hljóðunaraðferð að ganga vel, þarf nemandinn að hafa gott vald á eftirfarandi grunnstoðum:

Þættir sem hljóðunaraðferð byggir á:

 • Nemandinn þarf að hafa gott vald á stafanefningu
 • Hljóðkerfisvitund má ekki vera vandamál
 • Nemandinn þarf að geta byggt upp orðmyndasafn í huganum (sjónrænan orðaforða)

Nánar:

Flestir sem leita til mín vegna lestrarvanda eða lesblindu hafa ekki náð góðum tökum á lestri, þrátt fyrir áralanga þjálfun.  Margir hafa eytt heilu sumrunum í heimalestur með litlum árangri.

Þessir nemendur glíma oftar en ekki við stafarugling af einhverju tagi og þeir lesa oftar ekki mjög hægt.  Þeir beita semsagt ennþá hljóðunaraðferðinni, jafnvel eftir 4-5 ár af stífri lestrarþjálfun.  

Foreldrum þessara barna er uppálagt að sýna þolinmæði, þetta taki tíma.  Ekkert spurningarmerki er sett við aðferðafræðina sjálfa, hljóðunaraðferðina.

Þegar hingað er komið við sögu er oftast vitað hve vandinn er - þótt ekki sé vitað af hverju hann stafar.

👉Nemandinn ruglast á stöfum, eða hikar
👉Nemandinn les hægt, mun hægar en hann talar (nær ekki lestrarviðmiðum skólans)
👉Lesskilningur er oft slakur (þó ekki algilt)
👉Nemandinn þreytist oft fljótt, getur orðið pirraður eða sýnt mótþróa við lestur

Þetta virðist ekki vera gott veganesti fyrir lestranámið framundan.

Hvað er verið að æfa?

Við þurfum að átta okkur á því að nemandinn byrjaði ekki að ströggla í 3. eða 4. bekk.  Þessi vandamál sem að ofan er lýst hafa oftast litað lestrarnámið frá upphafi skóla.

Veikleikar þessara nemenda liggja einkum í stafanefningu og slökum nefnuhraða (hægum lestri). 

Nemandinn kann hins vegar að hljóða, hann kann að tengja saman hljóð stafanna.

Ef brestirnir liggja í stafa- og hugtakanefningu, hvers vegna er ekki unnið betur í því?

Ef hljóðalesturinn hentaði lesblindum nemanda vel, væri hann þá ekki búinn að ná betri árangri mun fyrr?  Ef nemandinn einblínir á hljóðalestur, þá styrkist einkum sú tiltekna færni.

Brestirnir sjálfir, þ.e. hnökrar í stafanefningu, lítill sjónrænn orðaforði og jafnvel slakur hugtakaskilningur, fær samkvæmt þessu litla athygli.

Hefðbundinn heimalestur felur ekki í sér næga áherslu á stafanefningu.  Heimalesturinn veitir heldur ekki rými fyrir markvissa endurtekningu sem þarf til að byggja upp sjónræna orðaforðann, aðferðafræðin styður ekki nægilega vel við þá hugsun.

Lestrarvandi er snúinn viðfangs, enda tekur langan tíma (oftast nokkur ár) fyrir einstakling að verða læs.  Mótþrói og áhugaleysi gera lestrarvandann auðvitað enn erfiðari viðfangs.  Margir nemendur hafa misst trúna á sjálfa sig eftir mörg ár af lesæfingum sem litlu hafa skilað.

Það er engin töfrapilla í boði, en það hlýtur að vera betra að leita uppi brestina, svo hægt sé að laga þá.

Heimalesturinn fer oftast þannig fram að nemandinn les með hljóðaaðferð, og foreldrið leiðréttir barnið þegar þörf er á.

Dæmi um heimalestur hjá nemanda sem notar hljóðaaðferð

Væri það ekki dásamlegt ef við gætum séð hvaða hugsanaferli á sér stað hjá nemanda sem situr við eldhúsborðið heima og les fyrir foreldri sitt?  Eitthvað þessu líkt gæti átt sér stað:

1️⃣Nemandinn sér orð, en kveikir ekki á perunni.  Orðmyndin er ekki til í sjónræna myndabankanum og nemandinn stendur því á gati.  Finnur fyrir óvissu.

2️⃣Nemandinn er þreyttur og vill helst giska til að sleppa við að hugsa.  Hann ákveður samt að vanda sig og reynir að lesa orðið með aðferðinn sem hann hefur notað frá upphafi lestrarnámsins, hljóðunaraðferðinni.

3️⃣Hljóðunaraðferðin virkar oftast vel, enda skotheld leið til að lesa orðmyndir sem heilinn skilur ekki.

4️⃣Nemandinn byrjar að tengja saman hljóð stafanna, en fyrsti stafurinn er "b", og nemandinn hefur alltaf ruglast á "b" og "d".

5️⃣Þrátt fyrir að vera kominn í 3ja bekk, hefur enginn náð að eyða þessari óvissu fyrir honum.  Hann eyðir talsverðri orku í að eyða óvissunni og ákveður að þetta sé "d".

6️⃣Nemandinn byrjar að hljóða en er fljótlega stöðvaður af móður sinni sem leiðréttir hann og segir "Þetta er "b"!  Hvenær ætlar þú eiginlega að ná þessu, systir þín er í 1. bekk og hún þekkir muninn.  Byrjaðu aftur, "bbbb"..." heldur mamman áfram.

Lesum hraðar lestrarþjálfunin

5 mínútur á dag

Ruglast barnið á stöfum?

Stafaruglingur er algengur og getur verið þrálátur og erfiður viðureignar.  Stafaruglingur dregur úr úthaldi og hægir á framförum.

Lesum hraðar þjálfunin leysir úr stafaruglingi svo barnið þitt getur komist á næsta stig lestrarins og notið þess að læra að lesa.

Les barnið algeng orð vitlaust eða giskar?

Margir nemendur ná ekki þeim sjónræna orðaforða sem þarf svo lesturinn flæði betur.  Þessi hópur stólar á stafatengingu (hljóðalestur) og dregst því fljótlega aftur úr þegar kemur að lestrarviðmiðum skólans.

Með vísindalegum hætti eykur Lesum hraðar sjónræna orðaforðann hratt, sem auðveldar nemandanum að þekkja algeng hugtök á sekúndubroti í stað þess að hika og þurfa að brjóta heilann til að lesa orðið.

Sýnir barnið mótþróa, pirrast eða þreytist það fljótt

Lestrarvandi útheimtir mikla orku sem bitnar á athygli og úthaldi nemandans.  Barn sem glímir við lestrarvanda uppsker oft lítið þrátt fyrir að viljinn sé fyrir hendi.  Með tímanum gera tilfinningasveiflur gjarnan vart við sig, s.s. pirringur, uppgjöf og mótþrói.

Þegar sjónræni orðaforðinn stækkar þarf nemandinn ekki að eyða orku í að lesturinn og getur því notið þess að lesa skemmtilegt efni bæði hraðar og lengur.

Ef ofangreind einkenni setja mark sitt á heimalesturinn er ástæða til að tryggja að þetta hamli ekki framförum hjá barninu.


Tags

dyslexia, lesblinda, lestrarkennsla, lestrarörðugleikar, lestrarþjálfun, Lestur


Fleiri áhugaverðir póstar fyrir þig

Reikniblinda – viðtal

Reikniblinda – viðtal

Basl í stærðfræði?

Basl í stærðfræði?
{"email":"Email address invalid","url":"Website address invalid","required":"Required field missing"}
>