January 8

“Enginn velur að dragast aftur úr” – Viðtal í Morgunblaðinu

0  comments

„Þegar þetta gengur vel og börnin finna árangurinn, þá er þetta frábært,“ segir Kolbeinn Sigurjónsson
sem á og rekur fyrirtækið Betra nám, en þar er boðið upp á upplýsingar, ráðgjöf og námskeið í tengslum
við lesblindu og lestrar- og stærðfræðiörðugleika."

More...

Eftirfarandi er viðtal sem birtist við mig í Morgunblaðinu þann 4. janúar 2024.

Blaðamaður: Kristín Heiða Kristinsdótttir (khk@mbl.is)

Ég stofnaði fyrirtækið fyrir tuttugu árum og þá í tengslum við innleiðingu á Davis-aðferðinni, sem er sérúrræði fyrir lesblinda,“ segir Kolbeinn Sigurjónsson um fyrirtæki sitt Betra nám sem allar götur síðan hefur boðið upp á námstækni- og lesblindunámskeið og í seinni tíð einnig námskeið í stærðfræði.

„Betra nám býður upp á upplýsingar, ráðgjöf og námskeið í tengslum við lesblindu og lestrar- og stærðfræðiörðugleika. Ég er með sérsniðin fjarnámskeið fyrir nemendur sem þurfa hjálp, hafa lítið úthald og takmarkaða athygli. Nemendur sem sýna veikleikamerki í lestri og stærðfræði á fyrstu námsárunum dragast oft hægt og bítandi aftur úr þegar líður á skólagönguna. 

Ég býð líka foreldrum upp á námskeið í heimalestrinum til að aðstoða þá við að finna leið til að veita börnum besta mögulegan stuðning heima, til að skapa þann stöðugleika sem þarf til að ná tökum á vandanum til lengri tíma.

Námskeiðið í glósutækni, eða námstækni, hjálpar nemendum að draga úr lestrar- og námsálagi, en þar læra þeir að glósa minna en með áhrifaríkari hætti, sem auðveldar þeim að skilja efnið betur og muna það lengur. 

Betra nám býður líka upp á námskeið í minnistækni,“ segir Kolbeinn sem er menntaður tölvunarfræðingur en lærði einnig lesblinduráðgjöf hjá DDAI og hefur sérhæft sig í úrræðum tengdum námsörðugleikum, einkum vegna lesblindu og ADHD.

Mjög skapandi krakkar

„Það sem greinir lestrarþjálfunina frá hefðbundnum lestrarkennsluaðferðum, er að hún byggir á sjónrænni nálgun og verklegri. Þetta gengur út á að virkja og nota fleiri skilningarvit, en flestir krakkar sem lenda í lestrarörðugleikum eiga það sameiginlegt að vera mjög skapandi.

Þau blómstra til dæmis í myndmennt, smíði og matreiðslu. Þau eru með gott ímyndunarafl, gott sjónminni og gott verkvit. Þau eru góð í þrívídd, að sjá fyrir sér hluti, en þau basla í tvívídd. Annað er í hægra heilahveli en hitt í vinstra heilahveli.

Tölur og bókstafir eru í vinstra heilahveli og þá lenda þau í basli, þau spegla stafi, hvolfa þeim og snúa, sem eru fyrstu merkin um lesblindu. Ef þau fá betri nálgun á þetta virðist draga verulega úr þessum ruglingi hjá þeim, sem kemur ekki á óvart, því sá sem hefur búið eitthvað til, hann kann það yfirleitt upp á tíu.

Í hefðbundinni kennslu eiga nemendur að gera eins og þeim er sagt, að herma, en hér fá nemendur tækifæri til að gera hlutina sjálfir. Mér finnst þetta ekkert endilega snúast um aðferðina, heldur um útkomuna fyrir nemandann, því flestir foreldrar sem leita til mín eru að leita að einhverju sem virkar fyrir barnið þeirra og taka því fagnandi ef aðferðin virkar og vilja nota hana.“

Börnin þurfa að njóta vafans

Kolbeinn segir að oft séu nemendur búnir að ströggla í þrjú til fjögur ár í skóla áður en foreldrar leita lausna til að börnin þeirra nái tökum á lestri.

„Enginn velur að dragast aftur úr í lestri, eða námi yfirhöfuð. Hljóðunaraðferðin sem er notuð í skólum, að tengja saman hljóð bókstafa, hún virkar oft ekki vel fyrir þau börn sem eru lesblind. Við verðum að leyfa þeim að njóta vafans og leyfa þeim að prófa aðrar aðferðir og sjá hvort þær virka.

Eins og í öðru þá virkar ekki eitt og hið sama fyrir alla, stundum er nemandi ekki tilbúinn til að fá aðstoð eða tileinka sér hana. Stundum er mótþrói, enda fylgir lesvanda því miður oft að börnin vilja ekki lesa, en þá er hægt að prófa aftur eftir eitt ár. Það kemur oftast að því að barnið er tilbúið til að gera eitthvað, af því það finnur að það er byrjað að dragast aftur úr. Þegar þetta gengur vel og börnin finna árangurinn, þá er þetta frábært.“

Stytta og bæta viðbragð

Kolbeinn segir að margt af því sem hann bjóði núna upp á í fjarnámskeiðum byggist á reynslu hans af því að vera með krakka í einkatímum. „Ég tók eftir því hjá börnum með lestrarörðugleika að þau ströggluðu líka í stærðfræði. 

Þau áttu erfitt með að læra margföldunartöfluna utan að og þau voru mjög lengi að reikna í huganum. Hjá lesblindum krökkum þarf að brjóta niður lestrarörðugleikana til að finna hvað liggur að baki og sama gildir um stærðfræðina. 

Þau vita til dæmis alveg að bókstafurinn K heitir ká, en þegar kemur að bókstafnum B, þá þurfa þau að brjóta heilann um hvort þetta sé B, D eða P. Lestrarþjálfunin sem ég býð upp á, sem heitir Lesum hraðar, og að sama skapi Reiknum hraðar, byggir á þjálfunarsnerpuæfingum. 

Þær ganga út á að þjálfa viðbragðið svo vel að barnið þurfi ekki lengur að brjóta heilann þegar það sér til dæmis bókstafinn B, heldur er það öruggt um að þetta er B. Sama aðferð gildir með stærðfræðina, bæði þessi námskeið byggja á því að stytta og bæta viðbragðið,“ segir Kolbeinn og bætir við að nemendur þurfi ekki að vera lesblindir eða talnablindir til að sækja námskeiðin hans.

„Barn sem er á sínum fyrstu árum í skóla nýtur góðs af þessari þjálfun. Það er ekki verra fyrir neinn að vera fljótari að lesa eða reikna. Við fullorðna fólkið gleymum stundum hversu erfitt það getur verið fyrir barn þegar það getur ekki það sem flestir hinir geta. Þau verða fljótt þreytt þegar þau þurfa að hafa mikið fyrir því sem aðrir kunna utan að og það getur brotið niður sjálfstraust þeirra.“

Að þekkja útlit orðanna

Kolbeinn segir að langflestir sem sæki námskeiðin hans séu á grunnskólaaldri, frá 6 til 15 ára . „Mesta ásóknin er í stærðfræðinámskeiðin hjá krökkum sem færast upp í sjöunda bekk, því þá þurfa þeir að vera búnir að ná tökum á reiknihraða í grunnreikningi. 

Best reynist fyrir börnin ef þau ná tökum á hugarreikningi áður en stærðfræðin verður þung. Sama á við um lesturinn, að reyna að ná hraðataktinum inn snemma. Börn sem eru lesblind sjá alls konar orð sem þau þekkja ekki, ef við sýnum þeim til dæmis ávöxt eins og epli og spyrjum hvað það sé, þá svara þau strax epli, af því að viðbragðið er sjálfvirkt.

Ef við sýnum sömu börnum orðið „epli“ á prenti , þá fer allt í lás, af því barnið þekkir ekki útlit orðsins. 

Þá tekur tíma að lesa með því að tengja saman stafina með hljóðum, sem er í lagi þegar þau eru yngri, en ekki þegar krafan um hraðari lestur er komin og þau þurfa að komast yfir mikið lesefni í mörgum fögum. Á námskeiðum hjá mér er verið að þjálfa sjónminni, stækka orðaforðann sem barnið þekkir, án þess að það þurfi að hugsa sig um.

Fjölga orðum sem barnið þekkir eins og páfagaukur þannig að þegar barnið sér orðið epli þá veit það svarið strax og velkist ekki í vafa,“ segir Kolbeinn og bætir við að auðvitað geti lesblindan rist dýpra og þá geti gengið hægar.

„Þetta er einföld leið sem gengur fyrir marga og krakkarnir nota þetta samhliða heimalestri. Þau gera æfingar daglega og barnið nær takti og flæði með því að gera æfingarnar markvisst í til dæmis aðeins fimm mínútur á dag. Í raun er verið að hamra inn með hárri tíðni þennan orðaforða, með aðferðum sem styrkja sjónminnið og flýta þannig fyrir árangri og framförum.“

Námskeið sem þú gætir haft áhuga á

Lestrarþjálfun

Lesum hraðar

Reikningur

Reiknum hraðar

Stærðfræði

Hraðbraut


Tags

lesblinda, minnistækni, reikniblinda


Fleiri áhugaverðir póstar fyrir þig

{"email":"Email address invalid","url":"Website address invalid","required":"Required field missing"}
>